Árgangagöngur
Í skólanum eru árgangagöngur í september. Yngsta stig og miðstig fer í göngur eftir frímínútur á meðan elsta stig fer strax að morgni. Skipulag er sent út fáeinum dögum fyrir göngurnar.
Baráttudagur gegn einelti – Vinakveðjur
Á baráttudegi gegn einelti í nóvember ganga nemendur og starfsmenn skólans með vinakveðjur til skiptis í öll hús eða fyrirtæki í Hveragerði.
Góðgerðarþema
Nemendur skólans standa að framleiðslu á allskyns vörum sem verða svo seldar á góðgerðardegi skólans en þá verður markaðstorg í íþróttahúsinu og kaffihús fyrir gesti í mötuneyti skólans.
Opnunartími á markaðstorgi og kaffihúsi er 09:30-12:00 og vinsamlega athugið:
Fyrstir koma, fyrstir fá. Undir lokin má búast við að lítið verði eftir til sölu á markaðstorgi.
Enginn posi verður á staðnum en mögulegt er að borga með peningum eða millifærslu.
Þennan dag verður ekki hefðbundin stundatafla.
Íþróttir, sund og smiðjur falla niður.
Það verður ekki hádegismatur í skólanum en þeir nemendur sem eru skráðir í frístundaheimilinu Brekkubæ fá viðbótarhressingu þar.
Skóli hefst á hefðbundnum tíma í heimastofu.
Skóla lýkur kl. 12:30.
Fyrri skólabíllinn fer kl 12:40, sá seinni kl 15:20 frá Bungubrekku.
Að loknu rölti á markaðstorgi/kaffihúsi hafa foreldrar þó val um að börn þeirra ljúki þá skóladeginum.
Desemberdagskrá
Í desember er margt á döfinni. Reglulega er gangasöngur en þá hittist allur skólinn fyrir framan skrifstofur, nemendur skrifa jólakort og læra dans í íþróttatímum. Starfsmenn geta tekið þátt í leynivinaleik. Síðustu tvo dagana eru litlu jólin og kertadagur. Á litlu jólunum er m.a. jólaball í íþróttahúsi og á kertadag heimsækja jólasveinar bekki með jólapakka. Skipulag er varðar þessa daga er sent út skömmu áður.
100 daga hátíð
Á hundraðasta skóladeginum er gjarnan uppbrot meðal bekkja tengt tölunni 100.
Dagur stærðfræðinnar
Dagur stærðfræðinnar er fyrsta föstudag í febrúar ár hvert. Þá er gjarnan uppbrot meðal bekkja tengt stærðfræði.
Árshátíðir
Á öllum stigum eru árshátíðir sem eru á skóladagatali. Skipulag er í höndum deildarstjóra og umsjónarkennara á hverju stigi.
Fjölgreindaleikar
Undir lok maímánaðar hvert skólaár eru fjölgreindaleikar. Þá er hringekja á hverju stigi byggð á fjölgreindum Howards Gardner þar sem gengið er út frá því að allir séu góðir í einhverju og að það eigi að leyfa öllum að fá tækifæri til að fást við það sem þeir eru sterkir í. Boðið er upp á fjölbreyttar þrautir þar sem allir fá tækifæri á að spreyta sig við mismunandi verkefni. Skipulag er sent í tölvupósti fáeinum dögum fyrir leikana.